Þórhallur Árnason

(1891-1976)

Þórhallur Árnason fæddist 13. janúar 1891 í Narfakoti í Innri Njarðvík, sonur hjónanna Árna Pálssonar, barnakennara, og Sigríðar Magnúsdóttur, en þau hjónin voru bæði fædd og uppalin í Rangárvallasýslu.

Þórhallur lærði cellóleik hjá Rüdinger prófessor í Kaupmannahöfn og hjá Emil Leichsenring í Hamborg.

Árum saman dvaldi hann erlendis, lengst af í Hamborg, og lék þá í hljómsveitum, bæði í kvikmyndahúsum og á opinberum skemmtistöðum. Hann kom þá stundum fram sem einleikari á félagssamkomum og kirkjutónleikum. Á þessum árum kom hann til Reykjavíkur með vini sínum Otto Stöterau píanóleikara, sem þá var ungur, en varð síðar leiðandi maður í músíklífi Hamborgar og vel þekktur píanóleikari í þýzka heiminum. Þeir héldu hér saman tónleika í Nýja Bíó um vorið 1925. Þórhallur sýndi þá, að hann var orðinn dugandi cellóleikari.

Nokkru síðar settist Þórhallur að í Reykjavík og hefur síðan verið virkur kraftur í tónlistarlífi bæjarins, í hljómsveit Ríkisútvarpsins frá 1931, í hljómsveitum, síðast í Sinfóníuhljómsveitinni og auk þess komið fram sem cellóleikari í sambandi við opinbera tónleika í marga áratugi.

Þórhallur hefur samið lög fyrir söng og hljómsveit, sem enn eru óprentuð. Lagið „Skúlaskeið“ (Grímur Thomsen), sem er tilþrifamikil ballata, hefur verið sungin opinberlega og vakið verðskuldaða athygli.

Read more