Þórarinn Jónsson 18.09.1900-07.03.1974
Þórarinn Jónsson tónskáld fæddist í Kastala í Brekku, þorpi í Mjóafirði á Austfjörðum, hinn 18.9. 1900. Hann var sonur Jóns Jakobssonar, útvegsmanns á Mjóafirði, og k.h., Margrétar Þórðardóttur húsfreyju. Eiginkona Þórarins var Ingibjörg Stefánsdóttir frá Kálfafellskoti, dóttir Stefáns Filippussonar grasalæknis, bróður Erlings grasalæknis, föður Ástu grasalæknis og Gissurar, afa Sigurðar Rúnars Jónssonar tónlistarmanns, föður Ólafs Kjartans óperusöngvara.
Á unglingsárunum stundaði Þórarinn sjóróðra heima fyrir og var nokkra vetur á vertíð í Vestmannaeyjum. Hann stundaði tónlistarnám í Reykjavík á 1922-24 hjá Þórarni Guðmundssyni, Páli Ísólfssyni og Ernst Schacht og fór síðan til Berlínar í framhaldsnám 1924 þar sem aðalkennari hans var Friedrich E. Koch, yfirkennari við Tónlistarháskólann í Berlín.
Þórarinn var búsettur í Berlín þar sem hann stundaði tónfræðikennslu og sinnti tónsmíðum. Hann flutti a.m.k. tvenna tónleika í Berlín, 1936 og 1941, þar sem eingöngu voru flutt verk eftir hann, en verk hans voru víða leikin í Þýskalandi og auk þess í Bandaríkjunum á þessum árum.
Eftir að Þórarinn flutti aftur til Íslands, 1950, kenndi hann m.a. hljómfræði við Söngskóla Þjóðkirkjunnar 1953-58 og var á sama tíma organisti Óháða safnaðarins.
Þórarinn var fremur íhaldssamt tónskáld, samdi í síðrómantískum anda, undir evrópskum áhrifum. Hann samdi mörg þekkt sönglög, s.s. Heiðbláa fjólan mín fríða, og Ave María, vönduð karlakórslög, s.s. Norður við heimskaut, Huldur og Ár vas alda, og Pastorale, hjarðljóð.
Tvöfaldur geisladiskur með tónlist eftir Þórarin kom út hjá Smekkleysu árið 2004. Þar er að finna heildarútgáfu á einsöngslögum og karlakórslögum hans en útgáfunni fylgdi vegleg bók um ævi skáldsins, eftir Knút Birgisson, sem hafði auk þess umsjón með útgáfunni.
Þórarinn lést 7. mars 1974.
Merkir Íslendingar. Morgunblaðið. 18. september 2013, bls. 35.