Stefán Ágúst Kristjánsson

(1897-1988)

Stefán Ágúst Kristjánsson fæddist í Glæsibæ við Eyjafjörð hinn 14. maí árið 1897. Hann lést 1. maí 1988. Foreldrar hans voru Kristján Jónsson bóndi og smiður í Glæsibæ og kona hans Guðrún Oddsdóttir frá Dagverðareyri. Var Stefán yngstur sjö barna þeirra hjóna, er upp komust. Stefán Ágúst kvæntist hinn 22. febrúar árið 1930 Sigríði Friðriksdóttur, f. 10. febrúar 1912, d. 6. ágúst 1980. Hún var dóttir Friðriks Daníels Guðmundssonar bónda á Arnarnesi við Eyjafjörð og konu hans Önnu Guðmundsdóttur. Börn Stefáns Ágústs og Sigríðar eru Anna Gabríella (Annella), f. 13. ágúst 1930, og Friðrik Daníel, f. 7. nóvember 1932. Annella var gift Magnúsi Ólafssyni lækni, sem lést árið 1990. Synir þeirra eru tveir og barnabörn fimm. Friðrik er kvæntur Ólafíu Sveinsdóttur og eiga þau tvær dætur. Auk þess á Friðrik tvo syni og tvö barnabörn. Að loknu námi við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal hóf Stefán hálfrar aldar starfsferil sinn á Akureyri, fyrst kennslustörf en síðan skrifstofu- og verslunarstörf. Stefán Ágúst var forstjóri Sjúkrasamlags Akureyrar 1936-1970 og jafnframt forstjóri Borgarbíós 1946-1970. Hann var lengi í forystusveit bindindishreyfingarinnar á Akureyri og helsti hvatamaður að rekstri Hótel Norðurlands og síðar Hótel Varðborgar á hennar vegum. Stefán Ágúst kom víða við í félagsmálum. Hann var einn stofnenda Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri árið 1930, karlakórsins Geysis árið 1922 og Tónlistarfélags Akureyrar árið 1943. Hann var formaður Tónlistarfélagsins fyrsta aldarfjórðunginn og vann sem slíkur þrekvirki í menningarmálum Akureyrarbæjar. Hann gaf út þrjár ljóðabækur og á aldarafmæli hans koma út sönglög eftir hann á geisladiski. Stefán Ágúst flutti til Reykjavíkur árið 1970, en hann lést þann 1. maí árið 1988.

Read more