Smári Ólason

(1946-2023)

Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og píanónámi við Tónlistarskólann í Reykjavík lagði Smári stund á tónfræði, tónsmíðar, hljómsveitarstjórn og kirkjutónlist við háskólann í Vínarborg þaðan sem hann útskrifaðist með meistarapróf 1979. Seinna var hann gestavísindamaður við Háskólann í Lundi í Svíþjóð (1991-1994) og nam þjóðfræði við Háskóla Íslands.
Smári kenndi við ýmsa tónlistarskóla, síðast í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar til ársins 2018. Hann var einnig organisti og kórstjóri víða og stundakennari við félagsvísindadeild Háskóla Íslands 2001 og 2005. Á sumrin sinnti hann gjarnan leiðsögumennsku eða starfaði við Byggðasafnið á Skógum (2008–2019). Smári var og virkur í Hjálparsveit skáta í Reykjavík frá 1962 til 1974 og einnig meðlimur í Frímúrarareglunni.
Þjóðlög, kirkjutónlist og tónlistarrannsóknir voru Smára hugleiknar alla tíð og er framlag hans á þessu sviði umtalsvert. Hann var einnig afkasmikill útsetjari og liggja eftir hann á annað hundrað verk á því sviði. Hann rannsakaði lengi flutning og munnlega geymd Passíusálma Hallgríms Péturssonar og gaf út kórútsetningar á sálmunum 2015.
(tekið af vef Ísmús)

Read more