Tónskáld frá Birtingaholti
Sigurður var fæddur 13. mars 1907 í Birtingaholti í Hrunamannahreppi, Árnessýslu, sonur hjónanna Magnúsar Ágústs Helgasonar, alþingismanns og bónda þar, og konu hans Móeiðar Skúladóttur. Sigurður lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg 1924, og nam harmoníum- og píanóleik frá 7-17 ára aldurs hjá einkakennurum í Reykjavík. Hann var bóndi í Birtingaholti frá 1934-1964. Hann var skólastjóri barnaskólans á Flúðum í Hrunamannahreppi 1950-51 og 1955-64, kennari í Reykholti í Biskupstungum 1964-69, kennari í barna- og unglingaskólanum á Stokkseyri 1970-72, og kennari við Gagnfræðaskólann á Selfossi 1972-75. Sigurður var skólastjóri Tónlistarskóla Árnessýslu 1974-78, en lét þá af störfum fyrir aldurs sakir og varð stundakennari við skólann.
Sigurður var hreppstjóri Hrunamannahrepps 1947-58, og í hreppsnefnd 1950-62. Hann var formaður Búnaðarfélags Hrunamanna 1939-63, formaður Nautgriparæktarfélags Hrunamanna 1935-50, og formaður Ræktunarfélags Hrunamanna 1946-56. Hann var formaður sóknarnefndar Hrepphólasóknar 1943-51, formaður Tónlistarfélags Árnessýslu 1969-77, organisti Hrepphólakirkju frá 1925 og síðar einnig við Hrunakirkju.
Sigurður fékk heiðursviðurkenningu fyrir tónlistarstörf, veitt úr Minningarsjóði Egils Gr. Thorarensen 1969, og listamannalaun 1980. Hann var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og var gerður heiðursborgari Hrunamannahrepps 1987. Sama ár var hann gerður heiðursfélagi Ungmennafélags Hrunamannahrepps og Tónlistarfélags Árnessýslu, og 1988 var hann gerður heiðursfélagi Landssambands blandaðra kóra. Sigurður byrjaði ungur að semja lög og liggja eftir hann fjölmargar tónsmíðar. Þá ritaði hann um skólamál í Hrunamannhreppi í Sögu Flúðaskóla 1929-1979.
Eiginkona Sigurðar var Sigríður Sigurfinnsdóttir, sem lést 1983, og eignuðust þau sjö börn.