Rúnar (Snæland) Gunnarsson fæddist vorið 1947 en lengi var nokkuð á reiki hvort hann hefði fæðst 1947 eða 48, fyrrnefnda ártalið er rétt. Rúnar hlaut tónlistarhæfileika frá móður sinni en hún kenndi honum lítillega á gítar. Hann ólst upp við klassíska tónlist að nokkru leyti og dáði Beethoven alla tíð en kom á hárréttum tíma inn í rokk og bítlatónlistina sem þá var að gerjast hérlendis sem annars staðar.
Sumarið 1965 stofnuðu Rúnar og Hilmar Kristjánsson hljómsveitina Dáta sem strax vakti athygli og aðdáun, Rúnar, þá aðeins átján ára, var þar í söngvarahlutverkinu og lék á rythmagítar.
Í kjölfarið léku Dátar víða um land og hitaði m.a. upp fyrir bresku hljómsveitina Hollies sem hingað til lands kom í ársbyrjun 1966. Síðar það sama ár leit fjögurra laga plata dagsins ljós með sveitinni en á henni var m.a. að finna lagið Leyndarmál, sem sló samstundis í gegn og hefur æ síðan verið eitt af einkennislögum íslenskrar bítlaæsku. Önnur lög plötunnar nutu ekki síður vinsælda, Alveg ær, Kling klang og Cadillac, en síðast talda lagið fékkst ekki spilað í Ríkisútvarpinu þar sem það var sungið á ensku.
Rúnar varð þjóðþekktur á svipstundu fyrir söng sinn, fékk hvarvetna góða dóma, en söngstíll hans þótti sérstæður en um leið góður.
Þótt hann hafi fyrst um sinn orðið þekktur fyrir sönghæfileika kom í ljós þegar næsta plata Dáta kom út, að Rúnar var einnig frábær lagasmiður en hann samdi öll fjögur lög þeirrar plötu. Þar bar hæst stórsmellinn Gvendur á eyrinni, sem líkt og Leyndarmál þykja ómissandi minnisvarðar um íslenska bítlið. Önnur lög þeirra plötu voru Fyrir þig, Hvers vegna og Konur.
Rúnar þótti ekki bara sérstæður söngvari heldur hafði hann einnig sérstæðan stíl við lagasmíðar, stíl sem fangaði en var um leið óhefðbundinn á þeim tíma. Aðrir popparar sáu hæfileika hans á þessu sviði og fólust stórsveitir þess tíma, Hljómar og Flowers eftir lögum hans á plötur sínar. Lagið Peningar á fyrstu stóru plötu Hljóma er til dæmis eftir Rúnar, og lagið Glugginn (sem upphaflega bar heitið Úr glugganum) með Flowers sem er enn einn fulltrúi bítlatímans sem hefur orðið sígildur.
Saga Dáta varð ekki mikið lengri, sveitin hætti störfum sumarið 1967 eða fljótlega eftir að seinni plata þeirra kom út, sagan segir að ástæðan hafi m.a. verið skapbrestir Rúnars en það hafi þá verið fyrstu merkin um andleg veikindi hans. Rúnar kom þá öllum á óvart þegar hann gekk til liðs við „gömlu mennina“ í Sextett Ólafs Gauks, sem bassaleikari og söngvari en hann hafði þá aldrei leikið á bassa, þetta var liður hjá Ólafi Gauki í að yngja upp í sveitinni en samtímis Rúnari gekk Páll Valgeirsson trommari til liðs við sveitina.
Þrátt fyrir miklar vinsældir Rúnars síðustu tvö árin á undan var tíminn með Sextett Ólafs Gauks líklega hápunkturinn á ferli hans. Hann spilaði reyndar og söng tónlist sem hæfði fremur eldra fólki (Rúnar var sjálfur tvítugur þegar hér var komið sögu) en inn á milli læddi sveitin inn bítlalögum. Og þegar fjögurra laga plata með sextettnum leit dagsins ljós með söngvurunum Rúnari og Svanhildi Jakobsdóttur í fararbroddi sumarið 1968 sló slagarinn Undarlegt með unga menn samstundis í gegn en lagið samdi Rúnar sjálfur.
Sjónvarpsþættir í umsjá Ólafs Gauks urðu ekki síður til að auka enn á vinsældir þeirra og þegar út kom önnur fjögurra laga plata, og síðan stór plata áður en árið 1968 var úti, var hápunktinum náð á ferli Rúnars. Stóra platan, Fjórtán lög eftir Oddgeir Kristjánsson, innihélt svokölluð Vestmannaeyjalög eftir Oddgeir sem lést hafði tveim árum fyrr, og er leitun að plötu sem notið hefur jafn almennra vinsælda í íslenskri tónlist en nánast öll laganna hafa löngu síðan öðlast sígildi. Má í því samhengi nefna lögin Blítt og létt, Bjartar vonir vakna, Ágústnótt