Ragnar Björnsson

(1926-1998)

Tónskáld og organisti

Ragnar Björnsson 27.03.1926-10.10.1998

Ragnar fæddist að Torfustaðahúsum í Vestur-Húnavatnssýslu, sonur Björns Guðmundar Björnssonar, organista og smiðs, og s.k.h., Sigrúnar Ragnheiðar Jónsdóttur, hjúkrunar- og saumakonu.

Fyrri kona Ragnars var Katla Ólafsdóttir meinatæknir en seinni kona hans var Sigrún Björnsdóttir leikkona og eignaðist hann fimm dætur.

Ragnar lærði fyrst á orgel hjá föður sínum, lærði á píanó hjá Huldu Stefánsdóttur á Þingeyrum, síðar skólastjóra Kvennaskólans á Blönduósi, lærði á orgel hjá Páli Ísólfssyni við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðan hjá föðurbróður Páls, Jóni Pálssyni og k.h., Önnu Adólfsdóttur, sem reyndust honum sem bestu fósturforeldrar. Hann lærði einnig hjá Sigfúsi Einarssyni, Victor Urbancic og Rögnvaldi Sigurjónssyni píanóleikari, lauk burtfararprófi í orgelleik frá Tónlistarskólanum 1947, burtfararprófi í píanóleik þaðan 1950, stundaði nám í hljómsveitarstjórn og píanóleik hjá prófessor Haraldi Sigurðssyni við Konunglega tónlistarskólann í Kaupmannahöfn og í hljómsveitarstjórn hjá Hans von Swarowsky við Vínarakademínuna og lauk prófum 1954. Hann fór síðar margar námsferðir í orgelleik til Berlínar og München. Einnig stundaði hann framhaldsnám í hljómsveitarstjórn í Hilversum í Hollandi og í Köln.

Ragnar hóf að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands á ballett- og óperusýningum í Þjóðleikhúsinu á 6. áratugnum. Eftir námið í Vínarborg var hann söngstjóri Karlakórsins Fóstbræðra í 26 ár, var jafnframt skólastjóri Tónlistarskólans í Keflavík í 16 ár, stofnaði Nýja tónlistarskólann í Reykjavík 1978 og var skólastjóri hans til dauðadags.

Ragnar var aðstoðardómorganisti hjá Páli til ársloka 1968 og var þá ráðinn dómorganisti. Hann stjórnaði óperum og ballettum í Þjóðleikhúsinu, var aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og stofnaði óperuflokk með íslenskum óperusöngvurum.

Read more