Nafn Péturs Sigurðssonar tónskálds er ekki vel þekkt utan Skagafjarðar en hann hafði mikil áhrif á tónlistarlíf á heimaslóðum nyrðra.
Pétur fæddist 1899 og bjó alla tíð í Skagafirðinum, hann var bóndasonur, nam húsasmíði og starfaði einkum við brúarsmíði. Hann hlaut ekki tónlistaruppeldi sem neinu næmi en hlaut þó einhverja tilsögn á harmonium, að öðru leyti var hann sjálfmenntaður en músíkalskur.
Pétur var aðeins sautján ára gamall þegar hann stofnaði söngkvartett sem hlaut nafnið Bændakór Skagfirðinga. Sá kvartett stækkaði, ekki mikið reyndar og taldi mest níu manns meðan hann starfaði en hann lagðist af 1916.
Um svipað leyti var nýr karlakór stofnaður í Skagafirði og tók Pétur við stjórn hans um tveimur árum síðar, stjórnaði honum um tíma og gaf honum nafnið Heimir. Sá kór er enn starfandi sem kunnugt er.
Pétur starfaði einnig um tíma sem söngkennari Barnaskólans á Sauðárkróki og sem organisti við Reynistaða- og síðar Sauðárkrókskirkju.
Pétur var ekki efnamaður og vann myrkranna á milli en gaf sér stundir við og við á kvöldin til að semja tónlist, mestmegnis einsöngslög. Þekktast þeirra er lagið Erla, góða Erla sem flestir þekkja en annars er vitað um þrjátíu lög eftir hann.
Pétur varð ekki langlífur og lést úr bráðalungnabólgu 1931 en hann var þá aðeins þrjátíu og tveggja ára gamall.
1969 stóð dóttir Péturs fyrir útgáfu sönglagaheftis með lögum hans en það ár hefði hann orðið sjötugur. Skagfirðingar hafa einnig verið duglegir að halda minningu hans á lofti með margs kyns hætti, Skagfirska söngsveitin hefur til að mynda haft lög hans á söngskrá sinni og einhver þeirra gefið út á plötum, sem og Karlakórinn Heimir.
Heimildir úr Glatkistunni