Páll Halldórsson

(1902-1988)

Páll fæddist í Hnífsdal14. janúar 1902. Faðir hans var Halldór Pálsson útvegsbóndi og formaður Halldórssonar, en móðir hans var Guðríður Mósesdóttir, Illugasonar, Örnólfssonar, Snæbjörnssonar.

Páll var elstur sjö systkina. Hann kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni 26. febrúar 1938. En hún er Hulda Sigríður Guðmundsdóttir Norðdahl. Foreldrar hennar bjuggu í Elliðakoti og á Geithálsi í Mosfellssveit. Börn Páls og Huldu eru: Margrét, kennari, fædd 14. apríl 1943 og Halldór, flautuleikari, fæddur 15. júní 1946.

Páll lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum í Reykjavík 1925. Hann nam orgelleik hjá Páli Ísólfssyni 1926-1930. Hljómfræði hjá Sigfúsi Einarssyni og kontrapunkt hjá dr. Victori Urbancic. Árið 1948-1949 stundaði hann framhaldsnám í Musikschule & Konservatorium í Basel, og Det kgl. danske Musikkonservatorium og Statens Lærerhöjskole í Kaupmannahöfn. Hann sótti námskeið í klassískum kirkjusöng í Halmstad í Svíþjóð árið 1948, og námskeið norrænna tónlistarkennara í Osló 1949.

Kennsluferil sinn hóf hann við Nauteyrarhr.skóla, N- ís., 1925-1926. Kennari við Austurbæjarskóla í Reykjavík frá 1930 til 1959. Stundakennari við Iðnskóla Reykjavíkur 1930-1932. Verslunarskóla Íslands 1932-1936. Söngstjórn: Karlakór Hnífsdælinga 1919-1920. Karlakór iðnaðarmanna 1932-1942, Söngfél. Þrestir í Hafnarfirði 1927-1928 og 1949-1950, Söngfél. Stefnir í Mosfellssveit 1945-1951. Aðstoðarorganleikari við Fríkirkjuna í Reykjavík 1926-1930. Kirkjuorganleikari Hallgrímskirkju í Reykjavík 1941-1977. Í stjórn Félags íslenskra organleikara frá 1951-1966.Í norræna kirkjutónlistarráðinu frá 1957-1965.

Eins og af framanskráðu má sjá hve ötull Páll var og starfsamur. Enn er þó eftir að geta tónskáldsins. Hann samdi mikið af lögum, en hér verða nefnd: Hin mæta morgunstund, partita fyrir orgel 1981. Ó, guð, þér hrós og heiður ber, partita fyrir orgel, útg. 1981. og Tólf kóralforspil, útg. 1982. Hér verða ekki talin öll hans verk, en alþekkt er Nýtt söngvasafn, sem hann tók saman og bjó til prentunar ásamt Friðriki Bjarnasyni o.fl. sem þeir félagar unnu fyrir Ríkisútgáfu námsbóka.

Read more