Magnhildur Gísladóttir

(1946-2016)

Magnhildur Gísladóttir fæddist 7. júlí 1946 á Höfn í Hornafirði. Hún lést 25. febrúar 2016 á Vífilsstöðum.

Foreldrar Magnhildar eru Gísli Arason, f. 16. september 1917, og Álfheiður Magnúsdóttir, f. 29. júlí 1919, d. 1. febrúar 2015.

Systur Magnhildar eru Guðrún Sigríður, Sigurborg, Ingibjörg og Erna.

Í mars 1977 giftist Magnhildur Þórólfi Árnasyni, f. 9. nóvember 1941. Þau hófu búskap á Akureyri 1972 en fluttust til Reykjavíkur 1977. Þau fluttu í Kópavog árið 1983, á Álftanes 1990 og í Hafnarfjörð 2008.

Sonur Magnhildar frá fyrra sambandi er Hallur Guðmundsson, tónlistarmaður, f. 12. júlí 1970. Faðir Halls er Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur. Hallur er kvæntur Ásdísi Huld Helgadóttur, upplýsingafræðingi, f. 27. apríl 1974, og eiga þau dæturnar Hildi Þóru, f. 7. ágúst 1998, og Helgu Guðnýju, f. 28. mars 2000.

Magnhildur lauk námi frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1988 og starfaði við það fag þar til veikindi tóku völdin. Hún starfaði m.a. á Greiningarstöð ríkisins í Kópavogi og sem forstöðumaður sambýlis fyrir blinda við Stigahlíð í Reykjavík.

Magnhildur starfaði með leikfélögum Hornafjarðar og Akureyrar og söng m.a. í Pólýfónkórnum, Mótettukór Hallgrímskirkju og Álftaneskórnum. Hún var um tíma formaður Kvenfélags Álftaness.

Read more