Jónatan Ólafsson, hljómlistarmaður og tónskáld, var fæddur í Reykjavík 17. febrúar 1914.
Jónatan ólst upp í Akurgerði í Vesturbæ Reykjavíkur. Hann hóf orgelnám níu ára gamall hjá Árna Eiríkssyni, sótti kvöldskóla KFUM og stundaði hljóðfæranám hjá Karli O. Runólfssyni. Hann byrjaði ungur að leika á píanó og var undirleikari Erlings bróður síns um tíma. Árið 1933 fóru þeir í hljómleikaferð til Ísafjarðar og Siglufjarðar og ílengdist Jónatan á Siglufirði í sjö ár. Hann starfaði við hljóðfæraleik á hótel Siglunesi, og stundaði þar kennslu og kórstjórn 1933 til haustins 1940, er hann fluttist til Reykjavíkur og ári síðar til Hafnarfjarðar. Þar bjó hann til 1947 og annaðist rekstur Góðtemplarahússins. Hann var í hljómsveit Óskars Cortes 194244 í Ingólfscafé og Iðnó. Árið 1944 réðst hann í stórhljómsveit Bjarna Böðvarssonar, sem lék í Tjarnarkaffi og fór með henni í landsreisu 1946. Einnig starfaði hann með Kling Klang kvintettinum, lék undir hjá Alfreð Andréssyni, Sigurði bróður sínum og Hallbjörgu Bjarnadóttur vítt og breitt um landið. Hann starfrækti eigin hljómsveit til ársins 1960 og hætti að koma opinberlega fram 1966. Eftir það lék hann eingöngu hjá Oddfellow eða í einkasamkvæmum fram á síðustu ár. Jónatan samdi fjölmörg dægurlög, kórlög, sálmalög og einsöngslög, sem eru landsþekkt. Fyrsta lag hans sem varð þekkt, Fögnum fögrum degi, var gefið út á nótum á fjórða áratugnum. Árið 1948 samdi hann Kvöldkyrrð, sem Sigurður bróðir hans söng inn á hljómplötu. Önnur þekkt lög eru m.a. Landleguvalsinn sem Haukur Morthens hljóðritaði, Ást við fyrstu sýn, hlaut 3. verðlaun í danslagakeppni SKT, Í landhelginni, fékk 1. verðlaun SKT 1958, Reyndu aftur fékk 1. verðlaun FÍD 1960 og Laus og liðugur, hlaut 1. verðlaun SKT 1962. Árið 1976 kom út hljómplata með 12 lögum Jónatans hjá SG-hljómplötum. Árið 1952 hóf Jónatan störf hjá Reykjavíkurborg og starfaði þar í 33 ár, fyrst hjá Áhaldahúsinu, síðan í bókhaldi hjá borgarverkfræðingi og var fulltrúi í innheimtudeild til 1984 er hann lét af störfum vegna aldurs. Einnig annaðist hann tónlistarkennslu, kór- og hljómsveitarstjórn. Jónatan sat í fulltrúaráði Félags íslenskra hljómlistarmanna 194145, var ritari Félags íslenskra danslagahöfunda frá stofnun, meðlimur í STEFEF