Jón Jónsson frá Hvanná

(1910-1963)

Jón Jónsson frá Hvanná fæddist 9. júlí, árið 1910. Eftir Jón liggja margar dægurlagaperlur og sú þekktasta er sjálfsagt „Capri Katarina“ sem Haukur Morthens söng inn á hljómplötu árið 1958.

Jón Jónsson frá Hvanná fæddist á þessum degi, 9. júlí, fyrir 100 árum, árið 1910. Eftir Jón liggja margar dægurlagaperlur og sú þekktasta er sjálfsagt „Capri Katarina“ sem Haukur Morthens söng inn á hljómplötu árið 1958. Lagið samdi Jón við ljóð Davíðs Stefánssonar en ljóðið flutti Davíð ítalskri blómarós á eynni Capri, mælti það af munni fram á staðnum, en einn félaga hans sem þar var staddur með honum, Ríkharður Jónsson myndskeri, sá til þess að ljóðið gleymdist ekki og skráði niður. Jón sótti á ferli sínum nokkrum sinnum í ljóð Davíðs, t.d. í laginu „Ég vildi að ég væri“ og „Mánadísin“.

Árið 1997 var hljóðrituð hljómplatan Töfrablik með lögum eftir Jón en framleiðandi hennar var Björgvin Halldórsson og söng hann að auki mörg laganna, þ.ám. „Capri Katarinu“.

Jónatan Garðarsson skrifaði texta um Jón sem finna má í plötuumslaginu og segir þar m.a. að Jón hafi átt þátt í að ryðja braut íslenskrar dægurlagasmíði og móta nýjar hefðir í tónlistarmálum Ísfirðinga og þjóðarinnar allrar með verkum sínum. Jón fékk mjög alvarlega heilablæðingu árið 1954 en skömmu áður en hann veiktist samdi hann „Capri Katarinu“. Jónatan segir í texta sínum að Jóni hafi verið ljóst að það lag gæti heillað fólk um allan heim ef rétt væri að málum staðið.

Jón var sjúklingur í níu ár og lést langt um aldur fram, 26. mars 1963.

Read more