Johann Wolfgang von Goethe

(1749-1832)

(28. ágúst 1749 – 22. mars 1832) var þýskur rithöfundur, ljóðskáld, dramatúrg, vísindamaður og heimspekingur sem skrifaði meðal annars leikritið Fást, skáldsöguna Raunir Werthers unga og Zur Farbenlehre um litafræði. Hann var hluti af þýsku bókmenntahreyfingunni Sturm und Drang við upphaf rómantíska tímabilsins. Goethe átti ríkan þátt í að koma rómantísku hreyfingunni á legg og hafði mikil áhrif á hana. Með orðum George Eliot var Goethe „stærsti andi þýskrar ritlistar ... og hinn síðasti sanni heimsmaður á þessari jörðu“. Meðal verka Goethes eru umdeildar vísindakenningar sem hafa verið bæði heimspekingum og listamönnum innblástur og jafnvel raunvísindamönnum, en hugmyndir hans um plöntur og þróun dýra voru þróaðar áfram af náttúrufræðingum, þeirra á meðal var Charles Darwin. Ein virtasta menningarstofnun heims, Goethe-Institut, heitir eftir honum en hún hefur það hlutverk að breiða þýska menningu út um heimsbyggðina.

Read more