Jóhann Björnsson, myndskeri Grundarstíg 12, Reykjavík,
Björn Jóhann Björnsson, eins og hann hét fullu nafni, var fæddur á Húsavík, 11. janúar 1904. Hann var sonur Björns Steindórs Björnssonar, trésmiðs á Húsavík, fæddur 20. september 1866 á Ysta-Mói í Fljótum og konu hans Guðnýjar Jónsdóttur, fædd 18. desember 1877 á Ísólfsstöðum á Tjörnesi.
Jóhann var elstur 4 systkina. ólst upp á Húsavík hjá foreldrum sínum. Hann gekk í barnaskóla í þrjá vetur og síðan í unglingaskóla Benedikts Björnssonar. Jóhann byrjaði snemma að starfa með föður sínum, aðallega við húsamálun og einnig annað sem til féll einsog þá tíðkaðist. Hjá Stefáni Guðjohnsen kaupmanni á Húsavík vann Jóhann í 10 ár en veiktist þá af berklum og lenti suður á Vífilsstöðum. Vegna veikinda sinna var Jóhann frá starfi í um 4 ár.
Eftir að Jóhann hafði náð sér eftir veikindi sín fór hann í Handíðaskólann og var þar við nám í þrjá vetur. Þetta voru fyrstu veturnir sem Handíðaskólinn starfaði. Jóhann sótti námskeið um listiðnað og listasögu í Krogrup Höjskole í Danmörku 1949. Að loknu námi í Handíðaskólanum kenndi Jóhann þar einn vetur en fór síðan norður til Húsavíkur þar sem hann gerðist teiknikennari við barnaskólann og gagnfræðaskólann. Þar starfaði hann í 10 ár, en árið 1953 flutti Jóhann með fjölskyldu sína suður til Reykjavíkur þar sem hann bjó síðan. Í Reykjavík vann hann við myndskurð m.a. hjá Ríkarði Jónssyni í mörg ár og Ágústi Sigurmundssyni. Síðar rak hann sitt eigið verkstæði, hin síðari ár á Skólavörðustíg 8, í húsi því sem úra og skartgripaverslun Kornelíusar Jónssonar er starfrækt.
Þeir eru orðnir margir smíðagripirnir sem eftir Jóhann liggja m.a. predikunarstólar í Reykjahlíðar- og Dalvíkurkirkju, skírnarfontar, m.a. í Húsavíkurkirkju, ræðustólar og margskonar smærri gripir unnir í tré og bein.
Jóhanni var fleira til lista lagt en að mála, teikna og skera út. Hann samdi sönglög sem m.a. sum hver hafa verið sungin af Karlakórnum Þrym á Húsavík og Karlakór Reykjavíkur. Hann var mikill unnandi íslenskrar náttúru og starfaði m.a. í Ferðafélagi Húsavíkur.