Ísólfur Pálsson tónskáld frá Stokkseyri var fjölhæfur listamaður og af honum er kominn fjöldi tónlistarfólks.
Ísólfur fæddist 1871 í Seli í Stokkseyrarhreppi, hann var yngstur tólf systkina en ekki er þess getið að hann hafi verið tengdur tónlist með einhverjum hætti í æsku.
Ísólfur bjó ásamt eiginkonu sinni og börnum á Stokkseyri þar sem hann stundaði m.a. sjómennsku en fékk einnig við önnur störf, hann stjórnaði á þeim tíma kór og söngkvartett og var einnig organisti í Stokkseyrarkirkju auk þess að kenna á harmoníum en hann virðist hafa verið sjálfmenntaður að miklu eða öllu leyti í tónlist. Meðal þeirra sem hann kenndi á harmoníum var Páll sonur hans sem síðar varð mikilvirt tónskáld en margt tónlistarfólks er komið af Ísólfi, þeirra á meðal má nefna Þuríði Pálsdóttur söngkonu.
Ísólfur og fjölskylda fluttust til Reykjavíkur 1910 og þar bjó hann og starfaði að mestu til dauðadags 1941.
Ísólfur var laghentur og snemma kunnur fyrir uppfinningar sínar og hefði án nokkurs vafa getað starfað við uppfinningar sínar einar ef hann hefði fengið til þess fjárstyrki á yngri árum. Meðal hluta sem hann fann upp og smíðaði voru steyptir netahringir sem hann fékk einkaleyfi fyrir en fleiri hlutir urðu einnig til fyrir hans hugvit. Ísólfur fékkst einnig við hómópatalækningar og þótti góður á því sviði þrátt fyrir að hafa ekkert lært í þeim fræðum.
Hann fékkst nokkuð við hljóðfæraviðgerðir og svo fór að hann fór utan 1912 og lærði hljóðfærasmíði og -stillingar í Danmörku og Þýskalandi, og starfaði við það eftir að heim kom. Hann gerði m.a. upp orgelin í Fríkirkjunni og Dómkirkjunni og smíðaði orgel fyrir kapellu Háskóla Íslands svo dæmi séu hér tekin.
Ísólfur var ennfremur ljóðskáld þótt hann hefði sig ekki endilega frammi í því opinberlega, nokkur ljóða hans koma fyrir í sönglagaheftinu Fjólu, sem Jón bróðir Ísólfs gaf út 1934 og innihélt þrjátíu og eitt lag eftir Ísólf.
En Ísólfur verður líkast til þekktastur fyrir framlag sitt sem tónskáld en hann samdi fjölda sönglaga um ævina. Þekktast þeirra er auðvitað Í birkilaut (Draumur hjarðsveinsins) sem flestir þekkja, en á plötu sem SG-hljómplötur gáfu út 1979 fyrir tilstuðlan afkomenda Ísólfs var að finna sextán lög eftir tónskáldið. Ísólfur samdi mun meira en þar er að finna en margar af tónsmíðum hans hafa því miður glatast.
Heimilidir úr Glatkistunni.