Ingvi Þór Kormáksson hóf tónlistarferil sinn 14 ára gamall sem trommuleikari í skólahljómsveitinni Sturlungum í Reykholtsskóla. Hann hafði þá notið smá tilsagnar í trommuleik og píanóleik. Næsta vor sneri hann sér alveg að hljómborðinu eftir hljómfræðinám hjá Árna Scheving og lék á orgel með hljómsveitinni Falkon frá Ólafsvík sumarið 1968. Hljómsveitir næstu ára voru Intermezzo og Júnísvítan frá Hellissandi / Ólafsvík og “fyrir sunnan”, Hljómsveit Jakobs Jónssonar, Gaddavír, Moldrok, Hljómsveit Önnu Vilhjálms, Experiment, Amon Ra, Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar og Goðgá. Árið 1988 hætti Ingvi Þór dansleikjaspilamennsku og fór að einbeita sér meira að lagasmíðum. Fyrsta hljómplata hans “Tíðindalaust” , kom út árið 1983 og “Borgarinn” ´87; “Ljóðabrot” ´90 og “Þegar þið eruð nálægt” ´92. Á þessum plötum (og diskum) voru aðallega lög við ljóð nútímaskálda. “Smiður jólasveinanna” (lög við barnaleikrit Möguleikhússins) kom út ´93. Sama ár hóf Ingvi Þór samstarf við breskan söngvara, laga- og textasmið, J.J. Soul. Saman stofnuðu þeir J.J. Soul Band sem flutti djass/blús/bræðing eftir þá félaga og aðra. Hljómsveitin sendi frá geislaplöturnar “Hungry for News” ´94 og “City Life” ´97. Lagið “City Life” hlaut 1. verðlaun í USA Songwriting Competition (R&B/Jazz Category) 1997 og lagið “Watch Out”, varð í . sæti í alþjóðlegri lagasmíðakeppni í Hastings á Englandi. Þrjú önnur lög eftir þá félaga hafa fengið alþjóðlegar viðurkenningar. Ingvi Þór og J.J. hafa nú gert útgáfusamning við bandaríska forlagið AURecordings. Ingvi Þór er menntaður bókasafnsfræðingur og vinnur á Borgarbókasafni auk þess að skrifa tónlistargagnrýni í DV og starfa við þýðingar. Hann nam við djassdeild Tónlistarskóla FÍH veturinn ´81-´82.

Read more