Ingunn Bjarnadóttir

(1905-1972)

Ingunn Bjarnadóttir (1905-1972) fæddist í Einholti á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu. Hún var dóttir hjónanna Margrétar Benediktsdóttur og Bjarna Eyjólfssonar, sem bjuggu í Hólabrekku á Mýrum, þar sem Ingunn ólst upp. 1927 giftist Ingunn Sigurði Eiríkssyni, verkamanni á Seyðisfirði. Þau Sigurður eignuðust tvö börn, Margréti Sigurbjörgu og Bjarna Eirík. Ingunn og Sigurður slitu sambúð 1937. 1940 giftist Ingunn Hróðmari Sigurðssyni, kennara (1912-1957). Þau bjuggu fyrst í Kiljarholti á Mýrum, síðan einn vetur á Höfn í Hornafirði, en fluttu svo til Hveragerðis 1946, þar sem þau bjuggu til æviloka. Ingunn og Hróðmar eignuðust fimm börn, Önnu Sigríði, Þórhall, Óttar Hrafn, Hallgrím og óskírða dóttur, andvana fædda. Með húsmóðurstörfum, samdi Ingunn lög og ræktaði skrúðgarð að Laufskógum 4 (húsið hét upphaflega Hraunteigur). Ingunn hafði enga tónlistarmenntun, en Hróðmar skrifaði upp mörg laga hennar

Hallgrímur Helgason hreifst af lögum Ingunnar og honum ber fyrst og fremst að þakka að lög hennar komust fyrir almenningssjónir. Ekkert getur betur lýst lögum Ingunnar, en að þessi hámenntaðaði tónlistarmaður skyldi leggja ómælda vinnu í að færa lög hennar í búning (undirspil við einsöng og kórútsetningar). Þetta gerði Hallgrímur án annars endurgjalds en vináttu þeirra hjóna, Ingunnar og Hróðmars. Því fer best á að lofa Hallgrími að hafa síðasta orðið, en eftirfarandi umsögn skrifaði hann á umslag plötu, sem synir Ingunnar gáfu út 1975:

"Ef lýsa á söngvakonunni Ingunni Bjarnadóttur (1905-1972), þá tel ég einkunnarorðin syngjandi sál hæfi henni best. Hvert ljóð er hún fór með varð söngur. Hann var eðlileg tjáning hennar, hrein og sönn. Þessi þrá eftir útstreymi tóns, er lyfti orði í æðra veldi, var svo sterk, að því var líkast sem hljómur margra alda, í söngvasnauðri tilveru Íslendinga, brytist hér fram af óstöðvandi afli. Við fyrstu kynni mín af Ingunni sá ég fljótlega, að hún var gædd óvenjulegri gáfu, lagvísi sem vert var að örva með nauðsynlegri aðstoð, ekki síst þar sem hún hafði farið á mis við allt tónmenntalegt uppeldi. Hún bara söng eftir hjartans lögmáli, sem henni var meðfætt. Það var sem hún hefði í vöggugjöf hlotið syngjandi arf ótal margra undangenginna kynslóða. Þessa firnalöngu fortíð endurtjáði hún í tóntegundum löngu liðinna tíma. Þannig er ævagamalt ljúflingslag úr Hornafirði, fæðingarsveit Ingunnar, bestur lykill að lagafjársjóði hennar. Söngur var löngum tengdur galdri og seið. Máttur tóna var sterkari mannlegum mætti. Hann opnaði innsýn í hulda heima, þaðan sem ofin voru örlög manna. Konur voru þá að jafnaði búnar bestum kostum til að miðla málum milli guða og manna. Söngur þeirra og töfraljóð voru því í hávegum höfð. Seiðkonur og völvur eru nú löngu hættar að gegna því mikilvæga hlutverki í mannlegu samfélagi, sem fyrrum var þeim ætlað. En töframáttur tóna lifir enn. Lög Ingunnar Bjarnadóttur eru hreinræktuð sönnun þess. Svo mætti fara, að þessi austfirska alþýðukona verði síðar talin mest söngvölva á Íslandi 20. aldar."

Read more