Eftir Sævar Inga Jónsson
Halldóra Be Björnsson var fædd að Litla-Botni í Hvalfjarðarstrandarhreppi 19. apríl 1907, næstelst átta barna Beinteins Einarssonar og Helgu Pétursdóttur konu hans. Beinteinn og Helga fluttu í Grafardal árið 1909 og bjuggu þar til ársins 1929. Öll voru börn þeirra hagmælt og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra. Árið 1993 kom út ljóðabókin Raddir dalsins með ljóðum allra systkinanna átta frá Grafardal.
Halldóra giftist 26. des 1936, Karli Leó, syni Guðmundar Björnssonar sýslumanns í Borgarnesi og Þóru Leópoldínu Júlíusdóttur konu hans. Karl Leó lést árið 1941. Dóttir þeirra er Þóra Elfa Björnsson, f. 1939.
Halldóra nam tvo vetur við lýðháskólann á Hvítárbakka og vann í nokkur ár við póstafgreiðslu í Borgarnesi. Eftir fráfall eiginmanns síns rak hún um skeið saumastofu sem hann hafði sett á stofn, en stærstan hluta af sinni starfsævi vann Halldóra við skjalavörslu á lestrarsal Alþingis, frá 1944 til aprílloka 1968.
Halldóra hóf ung að yrkja og skrifa, en fyrsta bók hennar, Ljóð, leit þó ekki dagsins ljós fyrr en árið 1949. Sex árum síðar gaf Halldóra út bernskuminningar sínar, Eitt er það land. Teikningar í bókinni eru eftir Barböru Árnason. Heiti sitt dregur bókin af Þykjastmannalandinu sem m.a. er sagt frá í þriðja kafla bókarinnar. Það land er öllum löndum merkilegra, land sem þó er ekki til. Það eru Þykjastmennirnir sem hafa fundið það, numið og byggt og ráða þar lögum og lofum. En sá galli er þó á ráðahagnum, að Þykjastmennirnir sem allir eru mjög ungir að árum og geta haft hlutina eftir sínu höfði, eru ofurseldir þeim álögum að hvenær sem alvörufólkið kallar á þá verða þeir tafarlaust að hlýða og lúta vilja þeirra (bls. 27-28).
Í næstu bók sinni má segja að Halldóra leiti á heldur ótroðnar slóðir og hafi eins og svo víða á sínum ferli leyft sjaldheyrðum röddum að heyrast. Bókin ber nafnið Trumban og lútan og kom út árið 1959. Hún hefur að geyma ljóðaþýðingar Halldóru af ljóðum kínverskra, grænlenskra og afrískra skálda. Í ritdómi sínum um bókina segir Baldur Ragnarsson í Tímariti Máls og Menningar (1960, 5.h. bls. 411) meðal annars að: ,,Torfundin mun sú ljóðabók meðal þeirra, sem birzt hafa á íslensku undanfarin ár, sem fremur á skilið alhuga lof en þetta safn ljóðaþýðinga eftir Halldóru B. Björnsson.“ Síðar lætur Baldur þess getið að bókin skipi sér á bekk með bestu frumsömdu ljóðabókum landsins.
Árið 1968 komu út tvær ljóðabækur eftir Halldóru, Við sanda og Jarðljóð. Í fyrrnefndu bókinni má m.a finna ljóðið ,,Og þá rigndi blómum“ sem lýsir vel þörf Halldóru að yrkja samhliða þeim húsmóðurstörfum sem til er ætlast að hún leysi af hendi. Þess má geta að titill ljóðsins var í heiðursskyni valinn nafn á bók sem Samband borgfirskra kvenna og Hörpuútgáfan gáfu út í tilefni af 60 ára afmæli SBK 4. maí 1991, en sú bók geymir smásögur, ljóð og leikrit eftir 142 borgfirskar konur, og eru verk Halldóru þar að sjálfsögðu á meðal.
Í Jarðljóðum gerir Halldóra ýmsar formtilraunir og býr meðal annars til tilbrigði við edduhætti. Þess má geta að við nokkur ljóða Halldóru úr frumsömdu ljóðabókunum hafa verið gerð sönglög, meðal annarra laga má nefna lag Jórunnar Viðar við hið þekkta ljóð Karl sat undir kletti og lag Fjölnis Stefánssonar við ljóðið Litla barn með lokkinn bjarta.
Halldóra B. Björnsson lést haustið 1968 eftir erfið veikindi. Áður hafði hún lokið við handrit að tveimur bókum sem út komu eftir andlát hennar. Sú fyrr útgefna heitir Jörð í álögum og hefur að geyma fimm sagnaþætti úr byggðum Hvalfjarðar, hennar bernskuslóðum. Bókin kom út árið 1969. Í formála hennar (bls. 5-6) minnist Jón Helgason ritstjóri frá Stóra-Botni í Hvalfirði, Halldóru og segir meðal annars:
,,Í Halldóru flæddi saman gamalt og nýtt. Hún tileinkaði sér það, sem henni var geðþekkt af menningartilbrigðum samtíðarinnar, en stóð þó djúpum rótum í fornum jarðvegi. Land og þjóð, tunga og saga voru henni helgir dómar, skáldskapurinn lind lífsins. Þó að hún sinnti alla tíð vandamálum samtímans á margvíslegan hátt, urðu hin