Guðmundur Gottskálksson

(1931-2011)

Guðmundur Gottskálksson var fæddur 16. apríl 1931 á Hvoli í Ölfusi. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 23. febrúar 2011.

Barn að aldri lærði Guðmundur að leika á hljóðfæri hjá föður sínum og afa sem báðir voru organistar og aðeins 10 ára spilaði hann á orgel á barnaskemmtunum. Guðmundur stundaði nám í orgelleik hjá Kristni Ingvarssyni organista, hóf síðan nám í Tónlistarskóla Reykjavíkur hjá dr. Páli Ísólfssyni og síðan hjá Róbert Ahrahm Ottóssyni á vegum þjóðkirkjunnar. Guðmundur hóf búskap á Kvíarhóli og vann með búskapnum sem organisti Kotstrandar- og Hveragerðissóknar og seinni ár hjá SS. Guðmundur hefur starfað mikið við tónlist. Hann var undirleikari hjá kórum og kvartettum og þá spilaði hann víða á samkomum en lengst af við messur og helgistundir hjá Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði.

Hann gaf út tvo geisladiska, þann fyrri í tilefni af 70 ára afmæli sínu en á honum spilar hann á orgel Selfosskirkju lög eftir Bach, Mozart o.fl. og seinni diskinn í tilefni af 75 ára afmæli sínu en á honum syngur Kammerkór Suðurlands lög eftir hann sjálfan. Guðmundur hafði einnig mikið yndi af garðyrkju var með gróðurhús og ræktaði hann þar bæði blóm og grænmeti.

Read more