Björn Sigurbjörnsson

(-)

BJÖRN SIGURBJÖRNSSON

Séra Björn Sigurbjörnsson fæddist í Reykjavík 27. júní 1949. Hann lést á Diakonissestiftelsens Hospice í Kaupmannahöfn 27. janúar síðastliðinn. Foreldrar hans eru Sigurbjörn Einarsson, biskup, f. 30. júní 1911 og kona hans Magnea Þorkelsdóttir, f. 1. mars 1911. Systkini Björns eru: Gíslrún kennari, f. 1934, Rannveig hjúkrunarfræðingur f. 1936, Þorkell tónskáld, f. 1938, Árni Bergur sóknarprestur, f. 1941, Einar prófessor, f. 1944, Karl biskup, f. 1947, og Gunnar hagfræðingur, f. 1951, búsettur í Västerås í Svíþjóð.

Eftirlifandi eiginkona Björns er Lilian Sigurbjörnsson, f. 25. des. 1948. Þau eiga þrjú börn: Kjartan cand. polit, f. 1970, deildarstjóri við Hagstofu Evrópusambandsins í Lúxemburg, kvæntur Annete Sigurbjörnsson fulltrúa hjá Hagstofu Evrópusambandsins og er sonur þeirra Magnús, f. 2000, María bókasafnsfræðingur, f. 12. jan. 1973, dóttir hennar er Sofie, f. 2002, og Bjarki f. 29. sept. 1977, er nýlega lauk B.A.-prófum í viðskiptafræði og tölvunarfræði.

Björn fluttist unglingur til Danmerkur og settist þar að. Hann stundaði ýmis störf en hóf árið 1981 nám við guðfræðideild Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan embættisprófi í guðfræði í janúar 1987. Hann var skipaður sóknarprestur við Christianskirken í Kongens Lyngby í Helsingørstifti vorið 1987 og vígður í dómkirkjunni í Helsingør 31. maí 1987. Því embætti gegndi hann fram á haust 1997 er hann varð að láta af störfum vegna veikinda. Á árunum 1989-1991 var hann aðstoðarkennari í prédikunarfræðum við Pastoralseminariet í Kaupmannahöfn. Meðfram prestsstörfum og eins eftir að hann lét af embætti fékkst Björn mikið við ritstörf og þýðingar. Hann þýddi Passíusálmana á dönsku og kom þýðing hans út í Reykjavík og Kaupmannahöfn 1995. Þá hafa komið út eftir hann þýðingar á íslenskum sálmum, barnaleikritinu Grýlu eftir Þórdísi Arnljótsdóttur og á Heimi Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur. Í handritum liggja eftir hann þýðingar á ljóðum og sögum m.a. eftir Davíð Oddsson, Gyrði Elíasson, Jón úr Vör, Sigrúnu Eldjárn, Stefán Sigurkarlsson og Þórarin Eldjárn. Þá sendi Björn frá sér tvær frumsamdar ljóðabækur. Sú fyrri er Orð og mál er kom út í Reykjavík árið 2000 og sú síðari ber heitið Út og heim og kom út í Reykjavík tæpri viku fyrir andlát hans.

Read more