Björn H. Jakobsson

(1894-1977)

Björn Jakobsson var fæddur á Varmalæk í Borgarfirði 5. júní 1894. Hann var yngstur fimm barna hjónanna Jakobs Jónssonar og Herdísar Sigurðardóttur, sem þar bjuggu. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum á Varmalæk, var vetrartíma við nám í Reykjavík og i eldri deild Hvítárbakkaskóla veturinn 1911-12. Var heima til vorsins 1920 er hann réðst að Hvítárbakkaskóla sem ráðsmaður við bú skólans og jafnframt kennari í eitt ár. Lét þá af ráðsmennskunni, en var áfram kennari til vorsins 1926. Ári síðar kvæntist hann Guðnýju Kristleifsdóttur frá Stóra-Kroppi. Flutti hann þangað og átti þar heima til ársins 1952, er hann flytur aftur heim að Varmalæk. Konu sína missti Björn árið 1932.

Hann gerist kennari við Reykholtsskóla og gegnir því starfi til sjötugsaldurs. Vann þá oftast við búskap á sumrin. Flutti í Borgarnes árið 1964 og tók þá að sér útgáfu á riti f. h. Kaupfélags Borgfirðinga, „Kaupfélagsritinu“, og gegndi því starfi til æviloka. Síðustu ár sín var Björn á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi. Hann andaðist 17. ágúst 1977.

Björn var fremur lágur vexti, grannur og léttur í hreyfingum. Hann var bráðgreindur og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Hann var góðum hæfileikum búinn, hafði ríka tónlistargáfu, prýðisvel ritfær, bráðhagur í höndum og kappinn og ákafinn við þau verk sem hann vann var einstakt.

Skólaganga Björns vara ekki löng miða við hvað nú tíðkast. Skóli hans var fyrst og fremst uppeldi í hópi systkina hjá foreldrum sínum, sem bæði voru af hinum merkustu ættum úr sveitum Borgarfjarðar; bjuggu á góðjörð og á heimili þeirra voru húslestrar og kvöldvökur með lestri og söng fastur liður, auk þess sem fjölskyldan fylgdist vel með nýjungum í allri verkmenningu.

Björn hóf sitt orgelnám hjá Helgu systur sinni, en var síðar vetrartíma í Reykjavík og naut þá tilsagnar Hallgríms Þorsteinssonar söngkennara. Síðar sótti hann nokkra tíma hjá Önnu Petersen. Laust eftir fermingu byrjaði Björn að leika á orgel við athafnir í kirkjum. Var organisti í Bæjarkirkju í rúm sextíu ár, lék þar síðast á jólum 1975. Söngur og tónlistariðkun var honum hálft lífið. Hann byrjaði ungur að kenna söng í Hvítárbakkaskóla og í Reykholti fengu margir sín fyrstu kynni af kórsöng hjá Birni. Um skeið starfaði Björn hjá Kirkjukórasambandi Íslands, og þjálfaði þá kóra víða á Suðurlandi og í Borgarfirði.

Björn samdi fjöldamörg sönglög, bæði sálma- og ljóðalög. Árið 1973 gaf Kaupfélag Borgfirðinga út nótnabók með sönglögum hans. Auk þeirra lét hann eftir sig í handritum allmörg lög. Björn hlaut fyrstur tónskálda verðlaun úr „tónmenntasjóði kirkjunnar“, fyrir frumsamin sálmalög og organistastörf. Heimili Kristleifs á Stóra-Kroppi var einstakt. Þar hallaði aldrei orði. Og öllum, sem þekktu Guðnýju Kristleifsdóttur, konu Björns, ber saman um að hún hafi verið afbragð kvenna.

Því hlýtur það að hafa markað djúp spor í líf Björns að missa hana eftir aðeins fimm ára sambúð. En vist hans á Stóra-Kroppi hefur vafalaust þroskað tilfinningu hans til ritaðs máls, og einnig átt drjúgan þátt í að móta hans lífsskoðun. Björn var trúr samvinnustefnunni, taldi hana "allra stefna ágætasta" . Hann var ákafur bindindismaður, en um lífsskoðun hans að öaru leyti vil ég vitna til þess, sem hann hefur sjálfur skrifar:

„Aðeins sú trú, er sýnir sig í verkum og valmennsku hefur í mínum augum gildi. Trúarkenningar án góðra verka eru staðlausir stafir. Ein dýrsta speki hlýtur að vera fólgin í þessum orðum: „Það, sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“. Þarna er fengin lausnin á öllum sambúðarvanda. Einnig hlýtur það að vera lögmál lífsins: „Eins og maðurinn sáir, þannig mun hann og uppskera. Með því er öllu réttlæti fullnægt.“

Minning Björns Jakobssonar lifir í hugum okkar, sem nutum hans kennslu og samfylgdar, hún lifir í ritverkum hans, og hún lifir lengst í sönglögum hans, sem margir íslenzkir tónlistarmenn hafa flutt og margir tekið við þau trygga.

Í NÓV. 1977. Bjarni Guðráðsson.

Heimild: Organistablaðið 3. tbl. 10. árg. 1977

Read more