Bjarni Böðvarsson hljómsveitarstjóri fæddist í Skildinganesi í Skerjafirði. Foreldrar hans voru Böðvar Bjarnason, prófastur á Hrafnseyri við Arnarfjörð, og k.h., Ragnhildur Teitsdóttir.
Bróðir Böðvars var Þórður, kaupmaður í Reykjavík, faðir Regínu leikkonu, og Sigurðar, tónskálds og kórstjóra, föður Þórðar, fyrrv. forstjóra Reiknistofu bankanna. Systir Böðvars var Ragnhildur, móðir Jóns Leifs tónskálds.
Bróðir Bjarna var Ágúst, forstöðumaður Landmælinga Íslands og dægurlagatextahöfundur.
Eiginkona Bjarna var Lára Magnúsdóttir, ein fyrsta dægurlagasöngkona landsins. Þau eignuðust þrjú börn, Ómar Örn sem lést unglingur, Dúnu, húsfreyju í Reykjavík, og hinn ástsæla dægurlagasöngvara, Ragnar Bjarnason.
Bjarni ólst upp á Hrafnseyri við Arnarfjörð, flutti 15 ára til Reykjavíkur, stundaði nám við VÍ og var verslunarmaður og bifreiðastjóri um skeið. Hann lærði orgelleik hjá Sigfúsi Einarssyni og Sigurði Þórðarsyni og síðar hljómfræði hjá Emil Thoroddsen og Hallgrími Helgasyni. Bjarni var 18 ára er hann hóf að leika á kaffihúsum og skemmtistöðum, var ráðinn bassaleikari hjá Ríkisútvarpinu skömmu eftir að það tók til starfa og lék með Sinfóníuhljómsveit Íslands um langt árabil.
Bjarni lék með flestum fremstu hljóðfæraleikurum landsins, stofnaði nokkrar hljómsveitir, var fyrstur til að fara með stórhljómsveit um landsbyggðina, árið 1946, og var lengi hljómsveitarstjóri vinsælustu danshljómsveitar landsins, Hljómsveitar Bjarna Böðvarssonar. Þá stjórnaði hann vinsælum útvarpsþáttum, s.s. Gömlum minningum.
Bjarni var stofnandi Félags íslenskra hljóðfæraleikara, árið 1932, formaður þess í áraraðir og heiðursfélagi FÍH.
Bjarni var fjölhæfur tónlistarmaður og prýðilegt tónskáld og útsetjari. Hann lést fyrir aldur fram á afmælisdaginn sinn, 1955.
Heimild: https://www.ismus.is/i/person/id-1007310