Alexandra Chernyshova var valin í hóp 10 framúrskarandi ungra Íslendinga árið 2014 fyrir framlag sitt til menningar á Íslandi. Árið 2020 fekk hún menningarverðlaun Reykjanesbæjar. Hún lauk meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst, M.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands, M.Ed. frá Háskólanum í Kiev, meistaragráðu í óperusöng og söngkennaraprófi frá Odessa tónlistarakademíunni og  Kiev Glier High Music College og sömuleiðis BA frá National Kiev Linguistic University. Alexandra lauk 8. stigi í píanóleik frá Kiev Tónlistarskóla N1. Auk þess stundaði hún söngnám við Michael Trimble Opera Institute og Katja Ricciarelli Opera Academy og sömuleiðis ljóða- og kammertónlist hjá Pr. Hanno Blascke. Hún hóf feril sinn á sviði sem einsöngvari hjá Kiev Academical Musical Theater of Opera and Ballet. Alexandra hefur sungið með Kiev National Radio Orchestra, New York Contemporary Opera, auk þess sem hún hefur sungið sem einsöngvari með Óperu Skagafjarðar sem hún stofnaði árið 2006, DreamVoices sem hún stofnaði árið 2008 og Óperu fyrir leikskólabörn sem hún stofnaði árið 2018. Alexandra hefur sungið víða um Ísland, Evrópu, New York, í Kína og Japan. 

Alexandra hefur gefið út þrjá einsöngsdiska: Alexandra soprano (2006), Draumur með rómantískum lögum eftir Sergei Rachmaninov við meðleik Jónasar Ingimundarssonar (2008) og You and only you (2011). Árið 2020 fékk fyrsta frumsamda ópera Alexöndru og Guðrúnar Ásmundsdóttur Skáldið og Biskupsdóttirin 1. sæti í alþjóðalegri tónskáldakeppni Isaak Dunajevskiy í Moskvu og lagið Ave María úr sömu óperu komst á lista með efstu tíu lögum á alþjóðlegu tónlistarkeppninni World Folk Vision. Árið 2020 fékk óperuballet fyrir börn og fullorðna eftir Alexöndru Chernyshovu, Ævintýrið um norðurljósin, við handrit móður hennar, Evgeniu, Grand Prix á Art festival “Aurora” í Stokkhólmi. Árið 2021 var þriðja ópera Alexöndru um ævi og störf frú Vigdísar Finnbogadóttur "Góðan daginn, frú forseti" frumsýnd í konsertuppfærslu í Grafarvogskirkju í Reykjavík, þar sem hljómsveitarstjóri var Garðar Cortes. Árið 2024 var nýr óperuballet fyrir börn "Jólaævintýrið um Grýlu og jólasveinana þrettán" var frumsýndur í Reykjanesbæ. Árið 2023 var fyrsta ópera hennar "Skáldið og Biskupsdóttirin" tekin upp og gefin út á spotify og geisladisk. 

Read more