Jónas Helgason

(1839-1903)

Jónas Helgason 28.02.1839-02.09.1903

Jónas Helgason fæddist í Reykjavík 28. febrúar 1839. Hann lærði járnsmíði hjá Teiti Finnbogasyni járnsmið og dýralækni í Skildinganesi. Stundaði hann iðn sína til 1881 að hann lagði smíðaáhöldin á hilluna fyrir fullt og allt og stundaði eingöngu tónlistarstörfin.Tónlistargáfan kom snemma í ljós hjá Jónasi. Hann hami óvenjugóða söngrödd. Hann lærði ungur að leika á fiðlu og harmoníum. Árið 1862 stofnaði hann ásamt nokkrum ungum mönnum söngfélag, sem nefnt var „Harpa“. Helgi bróðir hans var lengst af formaður þess, en Jónas stjórnandi. „Harpa“ starfaði lengi og vel og var óspör á að skemmta bæjarbúum með söng sínum. „Harpa“ sá um sönginn á þjóðhátíðinni 1874. Og „Harpa“ gaf út fyrstu söngrit Jónasar.

Árið 1875 sigldi Jónas til Kaupmannahafnar til tónlistarnáms. Nam hann hjá færustu tónlistarkennurum Dana, en Hartmann og Gade höfðu umsjón með námi hans. - Árið 1876 varð Jónas kennari við kvennaskólann og barnaskólann í Reykjavík og 1883 varð hann kennari við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Við lát Péturs Guðjohnsens 1877 varð Jónas organleikari við Dómkirkjuna í Reykjavík og 1881 veitti Alþingi honum 1000 kr. árslaun fyrir að kenna organleikaraefnum. Talið er, að með kennslu sinni hafi Jónas náð frábærum árangri. Öll störf sín rækti hann af sérstakri alúð og dugnaði og „lagði grundvöllinn og vann manna mest og bezt í þarfir kirkjusöngsins hér á landi“ eins og Sigfús Einarsson segir í formála fyrir 2. útgáfu af Kirkjusöngsbók hans.

Merkilegur þáttur í starfi Jónasar er útgáfustarfsemi hans. Hann gaf út milli 20 og 30 söngrit : kennslubækur, leiðbeiningarrit, kórlagahefti og sálmasöngbækur. Hafa þessi rit haft mikla þýðingu fyrir íslenzka sönglistarstarfsemi og heillavænleg áhrif.Jónas samdi nokkur lög. Allir kannast við sum þeirra: Lýsti sól, Við hafið ég sat, Þar fossinn í gljúfranna fellur þröng, Sólu særinn skýlir. Jónas dó 2. september 1903.

(Um Jónas hefur fremur lítið verið ritað, en benda má á grein Í Sunnanfara 1898 og minningargreinar um hann látinn í Reykjavíkurblöðunum, en þau minntust hans öll, Fjallkonan, Þjóðólfur og Ísafold. Nefna mætti grein sem söngmálablaðið „Heimir“ S.Í.K. birti í tilefni af 100 ára afmæli hans, en hún byggist að mestu á framannefndum greinum og lauslegri athugun á söngritum Jónasar).

Read more